top of page
Kiel LOGO.JPG

Saga Handboltaskólans í Kiel

​

Handboltaskólinn í Kiel byrjaði árið 2013 og hefur verið starfandi síðan og er búið að fara í 9 ferðir til Þýskalands, auk þess sem skólinn var árið 2020 á Selfossi vegna Covid 19. Alls hafa um 450 krakkar af öllu landinu verið í skólanum.

 

Hugmyndin að skólanum er komin frá Árna Stefánssyni, honum fannst vanta svona skóla fyrir handboltakrakka, það var boðið upp á knattspyrnuskóla en ekkert fyrir handbolta. Árni viðraði þessa hugmynd við vin sinn Alfreð Gíslason sem var þá þjálfari hjá THW Kiel í Þýskalandi. Alfreð gaf vilyrði fyrir því að krakkarnir í skólanum mættu koma í heimsókn og horfa á æfingu hjá liðinu og hitta leikmenn liðsins.

​

Undirbúningur fór strax á fullt og fyrsta ferðin var farin í júlí 2013. Rúmlega 50 krakkar frá Höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, Selfossi og Vestmannaeyjum fóru í ferðina sem tókst mjög vel. Í þeirri ferð voru meðal annars landsliðsmennirnir Ómar Ingi Magnússon, Elliði Vignisson, Ýmir Örn Gíslason, Elvar Örn Jónsson og Hákon Daði Styrmisson og landsliðskonurnar Sandra Erlingsdóttir og Lovísa Thompson. Síðan þá hafa bæst í hópinn fjölmargir unglingalandsliðsmenn og konur og mikill fjöldi krakka sem hafa verið í skólanum er í dag að spila í OLÍS-deildunum á Íslandi og nokkrir komnir út í atvinnumennsku.

​

Mikil áhersla hefur verið lögð frá upphafi á að fá bestu þjálfara landsins til að vera þjálfarar í skólanum og hefur það tekist mjög vel. Þjálfarar í skólanum sumarið 2022 verða: Árni Stefánsson sem er skólastjóri Handboltaskólans í Kiel, Stefán Árnason þjálfari yngri flokka hjá KA, Andri Snær Stefánsson þjálfari meistaraflokks kvenna hjá  KA/Þór, Ágúst Jóhannsson þjálfari kvennaliðs Vals og aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins, Jóhann Ingi Guðmundsson unglingaþjálfari og markmannsþjálfari hjá Haukum og Þórir Ólafsson unglingaþjálfari á Selfossi.

​

Auk þeirra hafa eftirtaldir verið þjálfarar í skólanum í gegn um tíðina: Arnar Pétursson þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, Ásbjörn Friðriksson aðstoðarþjálfari FH, Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV og hollenska landsliðsins, Hafdís Guðjónsdóttir þjálfari hjá HK, Hrafnhildur Skúladóttir þjálfari hjá ÍBV og þjálfari B landsliðs kvenna, Kristinn Guðmundsson þjálfari í Færeyjum, Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari hjá Val, Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar, Samúel Árnason þjálfari hjá HK, Stefán Arnarson þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Fram og Örn Þrastarson þjálfari kvennaliðs Selfoss.

​

Yfirfararstjóri í Handboltaskólanum í Kiel er María Guðný Sigurgeirsdóttir en auk hennar hafa verið Daði Pálsson, Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir og Unnur Sigmarsdóttir.

 

bottom of page